Það varð allt vitlaust á Wembley á sunnudaginn er Chelsea og Manchester City áttust við í úrslitum enska deildarbikarsins.
Markvörðurinn Kepa Arrizabalaga neitaði að koma af velli í framlengingu en hann hundsaði skilaboð þjálfarans Maurizio Sarri.
Kepa ákvað sjálfur að hann myndi klára leikinn og gerðu leikmenn Chelsea lítið til að breyta hans skoðun.
Þar á meðal fyrirliðinn Cesar Azpilicueta sem ákvað að blanda sér ekki í máli og reyna að leysa stöðuna.
Bróðir Antonio Rudiger, varnarmanns Chelsea, hefur nú tjáð sig um atvikið og segir að Azpilicueta ætti að vera sviptur fyrirliðabandinu.
Saif Rubie, bróðir Rudiger, tjáði sig um málið á Twitter en hann vill að Þjóðverjinn fái bandið í stað Azpilicueta.
,,Ég er aðdáandi Azpi en sem fyrirliði þá hefði hann aldrei átt að leyfa þessu að gerast,“ sagði Rubie.
,,Að mínu mati ætti hann að vera sviptur fyrirliðabandinu, settur úr liðinu um tíma og Rudiger á að taka við sem fyrirliði því hann er sannur leiðtogi.“