Það gerðist ótrúlegt atvik í enska deildarbikarnum í fyrradag er lið Chelsea og Manchester City áttust við.
Það voru engin mörk skoruð í venjulegum leiktíma í fyrradag og heldur ekki í framlengingu. Undir lok framlengingarinnar þá ætlaði Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, að skipta markmanninum Kepa Arrizabalaga útaf. Kepa meiddist lítillega í framlengingunni og var ákveðið að skipta Willy Caballero inná í hans stað.
Kepa hins vegar neitaði að fara útaf og ætlaði sér að klára leikinn, þrátt fyrir ákvörðun þjálfarans. Sarri gjörsamlega klikkaðist á hliðarlínunni eftir þessi skilaboð Kepa enda ákvörðunin ekki hans að taka. Kepa og Sarri hafa talað um misskilning, en Sarri sagðist halda að Kepa gæti ekki spilað vegna meiðsla.
Chelsea hefur sektað Kepa um 190 þúsund pund eða um 30 milljónir íslenskra króna, það eru vikulaun hans. Upphæðin fer í góðgerðarmál.
,,Þrátt fyrir að þetta hafi verið misskilningur, þá gerði ég mistök í þessum aðstæðum,“ sagði Kepa í yfirlýsingu á heimasíðu Chelsea.
,,Ég vil senda afsökunarbeiðni til Sarri, Caballero og liðsfélaga minna. Ég hef talað við þá og nú vil ég einnig biðja stuðningsmennina afsökunar.“