Halldór Armand Ásgeirsson, skrifar skemmtilegan pistil á vef RÚV í dag þar sem hann syrgir þá ákvörðun sem hans uppáhalds knattspyrnumaður hans tók. Sergio Busquets, miðjumaður Barcelona hefur nefnilega opnað sér reikning á Instagram.
Halldór er í sárum eftir þessa ákvörðun Busquets en hann hafði ímyndað sér að þessi öflugi leikmaður myndi ekki láta sér segjast, hann myndi láta þetta í friði, þvert á ráð umboðsmanna.
,,Maður er nefndur Sergio Busquets og hann er uppáhaldsfótboltamaðurinn minn. Hann spilar sem djúpur miðjumaður fyrir Barcelona, stundum er þessi staða kölluð varnarsinnaður miðjumaður, en fyrir þá sem hafa hvorki áhuga né þekkingu á knattspyrnu læt ég nægja að segja að hann gegnir eiginlega því hlutverki að vera miðja sólkerfisins í spili liðsins, snúningur annarra leikmanna og eiginlega leiksins í heild sinni, hringsólar um hann og hans ákvarðanir. Já, eða við gætum líkt Busquets við fótboltaútgáfuna af Hvalfjarðargöngunum. Fyrir hans atbeina kemst boltinn mun hraðar frá aftari hluta vallarins yfir til sóknarmanna Barcelona á vallarhelmingi andstæðingsins. Hlutirnir gerast hraðar og betur með Busquets inni á vellinum, en það fer ekki mikið fyrir honum,“ skrifar Halldór í upphafi pistilsins.
Halldór er sár og svekktur og spyr spænska miðjumannnn um ástæðu þess að hann gerði þetta.
,,En Sergio, Sergio, Sergio, af hverju þurftirðu að gera mér þetta? Í gær barst mér sú hörmungarfregn að Sergio Busquets væri byrjaður á Instagram og þetta fyllti mig djúpstæðri hryggð vegna þess að hann hafði til þessa ekki verið á neinum samskiptamiðli. Og mér fannst það ljá honum dulúð. Ég sá hann í sjónvarpinu sparka í bolta og leika sína list, en ég hafði engan annan aðgang að honum. Ég þurfti að fylla í eyðurnar sjálfur.“
Halldór kunni vel við að þurfa að ímynda sér hvernig persóna Busquets væri.
,,Ég sá fyrir mér að hann Sergio færi stundum einsamall með hljóðbók í eyrunum í langa kvöldgöngutúra meðfram mannlausri San Pol de Mar-strandlengjunni í Barcelona, klæddur í fráhneppta stuttermaskyrtu. Ég ímyndaði mér að hann vaknaði stundum fyrir allar aldir og fengi sér espresso-bolla og skraufþurra bocadillo með osti á litlum bar í miðbænum og talaði þar við þunnhærða keðjureykingamenn úr hverfinu, klædda í mokkasínur, um lottódrátt gærkvöldsins og verðlagninguna á sjónvarpsáskriftinni. Ég sá fyrir mér að hann hefði verið feiminn sem unglingur og stundum reynt að drekka í sig kjark til að tala við stelpur á klúbbum – og þegar hann færi í vímu þá vildi Sergio tala um Guð.“
Halldór telur að Busquets sé ekki jafn áhugaverður einstaklingur eftir þessi mistök.
,,Þannig var hann skuggi einnar af grundvallarmótsögnum nútímans: Því meira sem við sýnum okkur sjálf, því óáhugaverðari erum við. En núna er þessi fallega saga okkar Sergios búin. Hann er mættur á Instagram. „Hola a todos! Hér er ég mættur á samskiptamiðla!“ Svona hefst Instagram-færslan frá því í gær sem kramdi hjarta mitt. „Þetta er opinberi Instagram-reikningurinn minn, en þið getið einnig fylgt mér á Facebook og Twitter með því að smella á linkinn hér.“ Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri. Sergio, Sergio, Sergio. Hvaða styrktaraðili talaði þig inn í þessa fásinnu? Af hverju varstu að hlusta á fégráðuga umboðsmanninn þinn? Bein fantasíu minnar eru orðin að ryki sem sáldrast nú á haf út.“
Halldór kveðst gráta eftir þessa ákvörðun Sergio eins og hann kallar hann.
,,Sergio, Sergio, Sergio minn. Af hverju þurftirðu að gera mér þetta? Veistu ekki að kettir eru áhugaverðari en hundar? Þú varst forvitnilegasta spurning sem ég hafði nokkru sinni séð sprikla á grasvelli. Þú þurftir ekki trikkin hans Zidane, þú þurftir ekki æðislega hárið hans Pirlo, þú þurftir ekki ruddaskap eins og svo margir forverar þínir. Þú og Xabi Alonso, þið voruð mínir menn. En núna ertu hættur að vera spurning og ert orðinn að svari – lélegu og óáhugaverðu svari úr penna almannatengils, sem gerir þig ríkari og heiminn fátækari. Þú ert miðja sólkerfisins, þú ert Hvalfjarðagöngin í júní, þú ert Salman Rushdie á Twitter. Þú ert Vamos Equipo! og I’m with her, þú ert gíraffi og snakkpoki með herraklippingu og ég græt svörtum perlum í Öxará í alla nótt með batteríslausan síma út af þér. Gangi þér allt í haginn í Frakklandi í kvöld og ekki gleyma að taka speglaselfí inni á baði.“