Það fór fram stórleikur á Englandi í gær er lið Manchester United tók á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Fyrri hálfleikurinn í gær var ansi undarlegur en United þurfti að skipta þremur leikmönnum af velli vegna meiðsla. Liðinu tókst þó að enda leikinn með 11 menn á vellinum en Marcus Rashford var tæpur og var í erfiðleikum.
Því miður fyrir áhorfendur var ekki boðið upp á nein mörk í leik gærdagsins en færin voru af skornum skammti. Markalaust jafntefli því niðurstaðan í Manchester sem eru ekki frábær úrslit fyrir þessi lið.
Vegna meiðslanna ákvað Ole Gunnar Solskjær að það þyrfti að hægja all hressilega á leiknum og þá fór starfsfólk félagsins í það verkefni. Krakkarnir sem sáu um að koma boltanum inn á völlinn fengu skilaboð um að taka sér mikinn tíma.
Boltakrakkarnir fóru þannig að gera allt á hraða snigilsins í stað þess að koma boltanum sem fyrst í leik, þetta tók taktinn úr leiknum, eitthvað sem Solskjær vildi á meðan United leysti meiðslavandræðin.
Solskjær þurfti nefnilega að taka Ander Herrera, Juan Mata og Jesse Lingard af velli í fyrri hálfleik og hafði það áhrif á leikinn.
Jurgen Klopp kvartaði undan því eftir leik að öll þessi meiðsli hefðu tekið kraft úr Liverpool, leikurinn hafi alltaf verið að stoppa og það að boltakrakkarnir hægðu á leiknum hjálpaði ekki.