Jón Hjaltason sagnfræðingur er höfundur bókarinnar Bærinn brennur – Á fjórða hundrað mynda eru í bókinni
Jón Hjaltason sagnfræðingur er höfundur bókarinnar Bærinn brennur, en þar er sagt frá eldsvoðum, afdrifum húsa, þróun byggðar og mannlegum örlögum á Akureyri. Jón er fyrst spurður af hverju honum hafi þótt ástæða til að skrifa bók um bruna á Akureyri. Hann svarar: „Framan af 20. öld voru brunar afskaplega tíðir hér á Akureyri, já svo tíðir að því var almennt trúað að þeir hlytu að vera af mannavöldum. Og þótt heldur drægi úr þessum grunsemdum þegar á leið þá segir Bærinn brennur frá óhugnanlega mörgum brunum.
Eldsvoðar hafa breytt miklu um ásýnd Akureyrar og skipulag bæjarins. Til dæmis má rekja fyrstu bæjarvatnsveituna beint til eldhræðslu okkar Akureyringa. Og hér er enn í bænum, ótrúlegt nokk, óbyggt, allstórt svæði sem áður var þakið byggingum sem eldurinn eyddi á sínum tíma.
Merkar byggingar hafa líka horfið. Til dæmis brann elsta og fyrsta íbúðarhúsið á Akureyri. Hótel Oddeyri og Hótel Akureyri voru með glæsilegustu byggingum landsins á sínum tíma, bæði hurfu í eldi. Raunar má segja að heilu hverfin hafi fuðrað upp í sumum þeirra eldsvoða sem hér hafa orðið.“
Voru þetta mannskaðabrunar?
„Já, því miður hefur fólk týnt lífi í eldsvoðum á Akureyri. Afskaplega sorglegur atburður varð 1968 þegar ung móðir fórst og tveir ungir synir hennar. Sem betur fer eru þessi tilvik þó ekki mörg.“
Hvaða áhrif höfðu þessir brunar á samfélagið?
„Áhrifin voru mikil og nægir að nefna Vatnsveitu Akureyrar í því sambandi sem varð til í og með til að auðveldara yrði að slökkva elda í kaupstaðnum. En áhrifin hefðu orðið enn meiri, já, gríðarleg, ef samfélagið hefði ekki verið jafn fátækt og raun bar vitni. Brunarnir innleiddu nefnilega þá sannfæringu að timbur væri beinlínis hættulegt byggingarefni. Og hefðu menn átt einhverja peninga væri í dag ekki að finna eitt einasta gamalt timburhús á Akureyri.
Það eimdi lengi eftir af þessari trú. Við sjálft lá að jafnvel hin fornfræga bygging Menntaskólans á Akureyri lyti í lægra haldi fyrir steinsteypunni sem var hið eina sanna byggingarefni. Eldurinn hafði þá líka reynt að eyða þessu glæsilegasta skólahúsi landsins og munaði aðeins hársbreidd – og lítilli tilviljun – að það breyttist í brunarúst.“
Jón er spurður hvernig hann hafi unnið bókina. „Ég lagði sérstaka áherslu á að finna frumgögn um stærstu eldsvoðana, 1901, 1906 og 1969 sem varð reyndar snúnara en ég átti von á,“ segir hann. „Dómabókin fyrir árið 1901 er ekki finnanleg. Kannski hefur hún brunnið þegar Ástar-Brandur kveikti – eða kveikti ekki – í tukthúsinu 1938. Það var svo fyrir tilviljun að ég fann útskrift úr bókinni sem hafði verið þýdd á dönsku fyrir dönsk tryggingafélög.
Síðasti kaflinn í Bærinn brennur er um verksmiðjubrunann á Gleráreyrum 1969 og er að stórum hluta byggður á viðtölum við karlana sem í tólf klukkustundir börðust við ægilegt eldhaf.
Mér fannst líka spennandi að velta fyrir mér hlutskipti slökkviliðsmannsins. Hér áður var sá bestur í liðinu sem gat haldið lengst niðri í sér andanum, sagði mér gamall slökkviliðsmaður. Með öðrum orðum, sá sem þoldi reyk og eimyrju best. Þannig var búið að þessum mönnum og gengur eiginlega kraftaverki næst, finnst mér, að enginn þeirra skuli hafa farið sér að voða. Stundum skall þó hurð nærri hælum.
Annars er það slökkviliðsmaðurinn Gunnlaugur Búi Sveinsson sem ber stærsta ábyrgð á að Bærinn brennur varð að bók. Á sínum tíma lagði hann mikla vinnu í að safna heimildum úr dagbókum slökkviliðsins og blöðum um bruna á Akureyri. Síðan lögðust þeir á eitt, Gunnlaugur Búi og sonur hans Ólafur Búi, við að safna ljósmyndum sem þeir fengu lánaðar til eftirtöku, jafnt frá áhugaljósmyndurum sem atvinnumönnum. Þetta mikla safn fékk ég lánað og þar með fæddist hugmyndin.“
Fjöldi ljósmynda prýðir bókina. „Myndirnar eru sannarlega sérkafli út af fyrir sig og hafa fæstar komið á prent fyrr. Þær eru á fjórða hundrað og sýna þróun bæjarins í rúma hálfa öld eða fram til 1969. Þær elstu eru frá því fyrir aldamótin 1800/1900 en yngstu myndirnar tengjast verksmiðjubrunanum 1969,“ segir Jón. „Bærinn brennur er því sannkölluð myndabók, er mér óhætt að segja, enda allur frágangur hennar við það miðaður að ljósmyndir fái notið sín. Og það verð ég að segja að prentsmiðjan Oddi, en þar var bókin prentuð, hefur skilað einstaklega góðu verki. Ég held hreinlega að ég hafi aldrei séð betra prentverk á myndum en í Bærinn brennur.“