Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekki ánægður með dómgæsluna í kvöld í 1-1 jafntefli við West Ham.
Mark Liverpool í leiknum átti aldrei að standa en James Milner var þá rangstæður en ekkert var flaggað.
Klopp segir að dómararnir hafi áttað sig á eigin mistökum í hálfleik og hafði það slæm áhrif á þeirra frammistöðu að hans mati.
,,Þetta var auðvitað ekki okkar besti leikur. Leikstíll andstæðingsins hjálpaði ekki til en við þurftum að stjórna leiknum mikið,“ sagði Klopp.
,,Við skoruðum mark sem ég heyrði svo að væri rangstæða og ég held að dómarinn hafi komist að því í hálfleik.“
,,Það voru undarlegar ákvarðanir teknar eftir það sem hjálpuðu okkur ekki. Þetta var verðskuldað jafntefli.“
,,Ég ræddi við [Manuel] Pellegrini eftir leikinn rólega en hann svaraði ekki fallega, þetta var ekkert alvarlegt.“
,,Þetta voru bara 50/50 stöður þar sem þeir voru að fá aukaspyrnur eftir skyndisókn. Ef ég vissi að ég hefði gert mistök í fyrri hálfleik þá myndi ég ekki vilja gera fleiri.“
,,Þeir eru mannlegir eins og aðrir en ég hafði ekki hugmynd um að þetta hafi verið rangstaða á meðan leikurinn var í gangi svo það útskýrir mikið.“