Það er búið að finna flugvélina sem þeir Emiliano Sala og David Ibbotson ferðuðust með frá Nantes til Cardiff.
Þeir fóru í loftið þann 21. janúar síðastliðinn en flugvélin komst aldrei á leiðarenda og hefur hrapað yfir Ermasundinu.
Sala og Ibbotson voru einir um borð en sá fyrrnefndi var nýbúinn að skrifa undir samning við Cardiff í ensku úrvalsdeildinni.
Vélin fannst í gær og í dag hefur verið greint frá því að búið sé að finna eitt lík hjá vélinni, ekki hefur verið greint frá því hvort það sé Sala eða Ibbotson.
Líkið sást með myndavél sem fór á hafsbotn og skoðaði vélina og þar í kring. Frekari tíðinda af þessum harmleik má vænta í dag.
Það var lítill bátur sem rakst á part úr flugvélinni í gær en harmleikurinn hefur haft mikil áhrif á knattspyrnuheiminn.
Sala hafði gengið í raðir Cardiff þar sem Aron Einar Gunnarsson spilar en átti eftir að mæta á sína fyrstu æfingu.
Leitarteymið hefur birt myndir af vélinni á hafsbotni sem sjá má hér að neðan.