Paul Merson, fyrrum leikmaður Arsenal, er mjög umdeildur sparkspekingur en hann starfar í dag fyrir Sky Sports.
Merson ræddi titilmöguleika Liverpool á dögunum en liðið situr í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Merson kom með þá hugmynd að Liverpool ætti að falla úr leik í Meistaradeildinni til að eiga möguleika á að vinna úrvalsdeildina í fyrsta sinn.
Liverpool er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar en liðið fór alla leið í úrslit í fyrra.
,,Komiði ykkur úr þessari Meistaradeild. Komið ykkur út, komið ykkur út. Þetta félag hefur ekki unnið deildina í 29 ár, út með ykkur,“ sagði Merson.
,,Vinniði deildina, vinniði deildina. Út með ykkur. Út, Út. Í alvöru. Þessir leikmenn geta komið sér í sögubækurnar, komið ykkur út!“
,,Þú ert á leið að vinna deildina í fyrsta sinn í 29 ár, þið fattið ekki hversu stórt það er fyrir fólkið. Ef þeir vinna og komast áfram þá eru fleiri leikir, það yrði martröð.“
Louis van Gaal, fyrrum stjóri Manchester United, sá þessi ummæli Merson og lætur hann heyra það.
,,Þessi maður er ekki eðlilegur. Liverpool ætti ekki að taka þessu alvarlega,“ sagði Van Gaal um Merson.
,,Jurgen Klopp hefur breytt þessu Liverpool liði í stríðsvél, bæði sóknarlega og varnarlega. Ef ég myndi veðja á eitt lið til að vinna deildina þá yrði það Liverpool.“