fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025

Varpar ljósi á myrkrið

Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar í leiksýningunni Horft frá brúnni hefur vakið athygli – Ágeng og undirlýst film-noir stemning

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 24. nóvember 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er myrkrið og skuggarnir sem eru hvað áhugaverðastir í leikritinu Horft frá brúnni eftir Arthur Miller, sem er sýnt um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu. Sögusviðið er dimmt og fábrotið verkamannahverfi í námunda við Brooklyn-brúna í New York á sjötta áratugnum. Ítölsk innflytjendahjón hýsa tvo unga ættingja konunnar sem eru komnir ólöglega inn í landið til að vinna, en þegar annar þeirra verður ástfanginn af ungri frænku sem hefur alist upp í fóstri hjá Carbone-hjónunum, fyllist heimilisfaðirinn Eddie óstjórnlegri afbrýðisemi.

Lýsingin, sem er hönnuð af Ólafi Ágústi Stefánssyni, er lítil, þröng og köld svo aðeins lítil brot hárrar borgarsviðsmyndarinnar birtast hverju sinni, hreyfanlegir ljóskastarar færast um hringsviðið og varpa hvítri skímu á persónurnar en skilja stóran hluta þeirra eftir í skugganum. Og það eru einmitt hinar myrkari hliðar sem ómögulegt virðist að hemja, skuggahliðar sálarinnar sem munu fyrr en síðar koma í ljós með harmrænum afleiðingum.

Lýsing sýningarinnar hefur vakið sterk viðbrögð og má til að mynda nefna að á leiklistarbloggi sínu segir Þorgeir Tryggvason hana „glæsilegt verk [sem] gegnir óvenju viðamiklu hlutverki“.
Gagnrýnandi DV var síður hrifinn. „Þetta er áhugaverð tilraun og vel unnin en gagnast þó sýningunni ekki vel. Að mínum dómi var myrkrið einfaldlega of fyrirferðarmikið á þessu stóra sviði, leikararnir duttu niður í notalegan hraða og óþarfa værð færðist yfir áhorfendur,“ skrifaði Bryndís Loftsdóttir.

Ágeng og undirlýst

Ljósameistarinn Ólafur Ágúst Stefánsson hefur starfað í leikhúsi frá 2002, byrjaði sem sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu en var síðar ráðinn rekstrarstjóri Austurbæjarbíós. Af nauðsyn fór hann að prófa sig áfram í ljósahönnun á ýmsum viðburðum. Það var svo árið 2008 sem Lárus Björnsson, yfirmaður ljósadeildar Þjóðleikhússins, fékk hann inn í leikhúsið sem lærling. Smám saman steig lærimeistarinn svo til hliðar og Ólafur fór að hanna lýsingu leiksýninganna sjálfur. Meðal nýlegra verka sem hann hefur hannað lýsingu fyrir eru Vesalingarnir (sem þeir Lárus fengu Grímuverðlaun fyrir), Afmælisveislan, Sjálfstætt fólk, Hleyptu þeim rétta inn og Horft frá brúnni.

„Maður vinnur alltaf í mjög nánu samstarfi við leikstjóra og leikmyndahönnuð, en það er misjafn hversu ítarlegt það er. Stundum eru komin skýr „konsept“ sem maður á að vinna með, en stundum er byrjað á því að kasta einhverjum hugmyndum og tilvísunum á milli fyrir fyrsta samlestur,“ segir Ólafur Ágúst um starf ljósahönnuðarins.

„Hvað varðar Horft frá brúnni þá var Stefán Metz leikstjóri búinn að sjá þetta mjög vel fyrir sér. Hann var strax með þessa „film-noir“ hugmynd og vildi koma henni á svið. Frá fyrsta spjalli var því ljóst að lýsingin myndi leika mjög stóra rullu. Lýsingin í sýningunni er óvenjuleg og kannski svolítið ágeng: mjög þröng, köld og jafnvel undirlýst á köflum. Það hefði aldrei verið hægt að láta þetta heppnast nema af því að leikstjórinn, leikmyndateiknarinn og ljósahönnuðurinn lögðust allir á sömu sveif,“ segir hann.

Lýsingin í sýningunni er óvenjuleg og kannski svolítið ágeng: mjög þröng, köld og jafnvel undirlýst á köflum.
Hilmir Snær leikur hafnarverkamanninn Eddie Carbone sem er ófær um að hemja sínar myrku hliðar.
Ljós og skuggar Hilmir Snær leikur hafnarverkamanninn Eddie Carbone sem er ófær um að hemja sínar myrku hliðar.
Stöðugt er vitnað í gamlar film-noir kvikmyndir með lýsingunni í Horft frá brúnni.
Film-noir Stöðugt er vitnað í gamlar film-noir kvikmyndir með lýsingunni í Horft frá brúnni.

Kuldi og „goth“

Lýsingin í Horft frá brúnni byggir nánast eingöngu á hvítum ljósum sem varpast úr ljóskösturum inni á sviðinu og eltiljósum úti í sal.

„Sean Mackaoui hannaði snilldarleikmynd sem nýtur sín vel jafnvel þótt hún sé svona þröngt lýst, hún verður bara mystísk og flott. Á fyrstu módelunum hans var strax komin sú hugmynd að setja ljósgjafa inn á sviðið. Ég tók hana svo lengra og þróaði með því að hanna sérstaka ljóskastara sem ferðast um sviðið. Það eru sjö eða átta ljósgjafar sem ferðast um og lýsa sviðið innan frá. Það var töluvert mál að „kóreógrafa“ meðferðina á þessum ljósum, en leikarar og tæknifólk skiptast á að stýra því,“ segir Ólafur.

„Í undirbúningnum hugsaði ég að það gæti líka verið þénanlegt að hafa þröng eltiljós úti í sal, en Stefan taldi að það væri ómögulegt því það þyrfti að vera svo ofurnákvæmt. Ég sannfærði hann hins vegar um að prófa því við erum með fjórar sjúklega góðar stelpur sem stýra ljósunum. Þær lögðu á sig mjög mikla vinnu til að læra þessa lýsingu og framkvæma, því hún krafðist miklu meiri nákvæmni en hefðbundin eltiljósavinna.

Þetta eru örugglega 85 prósent hvít, köld ljós í sýningunni en það eru þó örfáar heitar senur. Atriðið þar sem Lára og Snorri [sem leika hið ástfangna par, Katrínu og Rodolfo] eru saman á bryggjunni, er til að mynda brotið upp með heitu ljósi. Svo „hintum“ við aðeins í blátt á örfáum stöðum. Bláa lýsingin er mjög algeng í leikhúsi, því hún er svo þénanleg og hjálpar gríðarlega mikið – til dæmis þegar ætlunin er að skapa kvöldstemningu. Við ákváðum að sleppa henni að eins miklu leyti og við gætum, en leyfðum okkur að lauma henni inn á örfáum stöðum til að skapa örlitlar andstæður.“

Ólafur segir vinnuna hafa verið sérstaklega skemmtilega, sérstaklega þar sem hann sé afar heillaður af myrkri ljósahönnun. „Auðvitað þarf maður að kunna á alls konar stíla enda mörg mismunandi verkefni sem maður fær. En það er alltaf smá „gothari“ í mér og mér finnst voða gaman þegar hlutirnir eru svolítið myrkir. Hleyptu þeim rétta inn var líka myrk, en á allt annan máta – svolítið meira „emó“.“

Það er alltaf smá „gothari“ í mér og mér finnst voða gaman þegar hlutirnir eru svolítið myrkir.

.
Dimm stræti .

Hið ósýnilega ljós

Ólafur tekur undir með blaðamanni að það sé áhugaverð mótsögn að almennir leikhúsgestir taki sjaldnast mikið eftir lýsingunni, það sem lætur okkur sjá það sem gerist á sviðinu verður ósýnilegt.

„Já, við ljósahönnuðirnir höfum stunduð hlegið að því að þegar fjallað er um leiksýningar er stundum þreifað á öllum hlutum sýninganna nema lýsingunni. Eflaust er ástæðan sú að hún blandast bara inn í upplifunina og hálfpartinn hverfur – nema þegar hún er gerð sérstaklega áberandi. Oft er góð lýsing líka bara ósýnileg og maður tekur ekki eftir henni, en það fer auðvitað eftir stílnum. Ég held hins vegar að ef lýsingin er illa gerð þá taki fólk eftir því – það leynir sér ekki.“

En hvað með innblástur og áhrifavalda, hvaðan fær ljósahönnuður slíkt?

„Það eru kannski ekki margar stjörnur í þessum bransa, en maður fylgist með kanónum eins og Robert Wilson og James Turrell. Eins og Turrell er ég líka áhugaflugmaður og himinninn býður upp á sjúklega mikið af „tilvísunum“ – eins og náttúran öll auðvitað. Það er líka afskaplega gott að horfa á bíómyndir og margt mjög vel gert þar. Nýlegt dæmi er til að mynda Game of Thrones, það er í raun geggjað hvernig er unnið með ljós þar. Og eftir því sem ég vinn meira við þetta sogast ég líka æ meira inn í myndlistina. Eftir því sem ég stúdera lýsingu og leiklist meira toga málverkin og höggmyndalistin alltaf meira í mig.“

Myndir úr öðrum sýningum sem Ólafur Ágúst hefur komið að sem ljósahönnuður.

.
Sjálfstætt fólk – Hetjusaga .

Mynd: eddi@internet.is tel:+354-6993789

.
Hleyptu þeim rétta inn .
.
Afmælisveislan .
.
Vesalingarnir .
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Afi í fyrsta sinn og er í skýjunum – Hinn afinn fastur í fangelsi og er sagður stjórna glæpagengi

Afi í fyrsta sinn og er í skýjunum – Hinn afinn fastur í fangelsi og er sagður stjórna glæpagengi
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Segir frá leyndarmálinu við að taka fallegar bikinímyndir

Segir frá leyndarmálinu við að taka fallegar bikinímyndir
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Klopp áttar sig ekki á því hvar Slot ætlar að spila Wirtz

Klopp áttar sig ekki á því hvar Slot ætlar að spila Wirtz
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leicester búið að ráða eftirmann Van Nistelrooy

Leicester búið að ráða eftirmann Van Nistelrooy
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Háttsettir embættismenn og auðkýfingar hrynja eins og flugur

Háttsettir embættismenn og auðkýfingar hrynja eins og flugur
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Jarðskjálftahrina í Sundhnúksgígaröðinni – Eldgos talið yfirvofandi

Jarðskjálftahrina í Sundhnúksgígaröðinni – Eldgos talið yfirvofandi
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Fjögurra manna fjölskylda hvarf og engin merki um átök – Hver var nógu illgjarn til að berja fjölskylduna til bana?

Fjögurra manna fjölskylda hvarf og engin merki um átök – Hver var nógu illgjarn til að berja fjölskylduna til bana?