Líbería er lítið ríki á vesturströnd Afríku með landamæri að Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Íbúar eru um 4,7 milljónir (Desember 2017). Enska er opinbert tungumál en um þrjátíu frumbyggjamál eru líka töluð í landinu.
Jóni Rúnar Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar FH var boðið til landsins í síðasta mánuði. Ástæðan var viðtal sem hann fór í á HM í Rússlandi í sumar.
,,Í sumar í Moskvu, fór ég í viðtal á BBC World með Klöru Bjartmarz. Ég veit ekki hvað var sagt af viti, þetta viðtal heyrðist í Líberíu. Hjá mér vinnur stúlka frá þessu ágæta landi, vinur hennar segist hafa verið að horfa á viðtalið við mann frá Íslandi að tala um fótbolta, hún sagði honum að þetta væri yfirmaður sinn,“ sagði Jón Rúnar í 90 mínútum á föstudag.
Maðurinn sem vildi fá Jón Rúnar til landsins setti allt af stað.
,,Þetta er virðulegur viðskiptamaður, var fótboltamaður og hefur mikið að segja það. Stjórnmálamaður þarna bauð mér svo að koma, það var haft samband við mig í sumar og spurt hvenær ég gæti komið. Ég sagði um miðjan október en hélt að þetta væri nú bara vitleysa. Þetta kom svo, eldri dóttir mín vinnur í utanríkisráðuneytinu og gaf mér grænt ljós, eftir að hafa tékkað þetta.“
Arnar Grétarsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu kom til tals í Líberíu.
,,Það endaði þannig að ég fór til Líberíu, það var settur upp leikur Pressuleikur, sýna mér hvernig þetta væri. Ég kom á samkomu með liðum þarna, þar vatt sér að mér maður, þegar hann áttaði sig á því að ég væri frá Íslandi. Hann spurði hvort ég vissi hver Arnar Grétarsson væri, hann heitir Kelvin Sebwe og lék með Arnar í Grikklandi. Hann spilaði ekki bara með honum, þeir voru herbergisfélagar. Arnar var kallaður „blond“.“
Jón fór og ræddi við þá sem ráða yfir fótboltanum í Líberíu og þar hitti hann fyrrum besta knattspyrnumann heims.
,,Það er svo mikið haf og himinn á milli, ég var heppinn að hann bauð mér á skrifstofuna til sín, forsetinn. George Weah, það var á honum að heyra að þarna væri hyldýpi að fylla. Mér finnst gaman að sjá svona hluti.“
Þáttinn má heyra hér að neðan.