Eiginkona Thomas Muller, Lisa, var mjög ósátt í gær eftir leik Bayern við Freiburg í þýsku Bundesligunni.
Niko Kovac, stjóri Bayern, ákvað að bekkja Muller í leiknum en hann kom við sögu er 20 mínútur voru eftir.
Bayern komst yfir með marki frá Serge Gnabry á 82. mínútu leiksins en Freiburg jafnaði metin svo á lokamínútunni.
Kovac er undir mikilli pressu í Munich þessa dagana og var Lisa ekki ánægð með þessa ákvörðun hans í gær.
,,Hann beið í 70 mínútur þar til það kviknaði loksins á ljósaperunni,“ sagði Lisa.
Muller tjáði sig svo sjálfur um ummæli konunnar en hann skilur af hverju hún var í uppnámi yfir þessari ákvörðun.
,,Þetta voru bara tilfinningar en ef ég hugsa til baka var þetta ekki frábært. En hún elskar mig bara, hvað á ég að gera?“ sagði Muller.