Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is stýrir.
Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl.
Gestur þáttarins í dag var Jón Rúnar Halldórsson sem er formaður knattspyrnudeildar FH í Pepsi-deildinni.
Jón fór yfir stöðu Ólafs Kristjánssonar hjá FH en hann tók við liðinu af Heimi Guðjónssyni fyrir tímabilið.
FH gekk ekki vel undir stjórn Ólafs í Pepsi-deildinni og mistókst að komast í Evrópukeppni í fyrsta sinn í mörg ár.
Jón segist þó vera ánægður með samstarfið hingað til og segir að verkefnið muni taka tíma.
,,Það er vissulega með það eins og annað, þó svo hann sé FH-ingur og það allt saman, hann hefur verið lengi að heiman,“ sagði Jón Rúnar.
,,Ég las um hann mest en auðvitað vissum við hvern mann hann hefur að geyma og hvað hann kann og mest af því sem ég hef upplifað er ég ánægður með.“
,,Hann að sjálfsögðu líka hefur þurft að læra á okkur þó við séum auðveldustu menn í umgengni í heimi þá er það samt eitthvað! Þetta er allt að smella saman.“
,,Ég held að menn hafi séð það seinni partinn af sumrinu, ég held að við höfum verið eina liðið sem var tilbúið að bæta við umferð.“
Jón var svo spurður að því hvort það hafi komið til greina að reka Ólaf en hann neitar fyrir það.
,,Nei. Það má sjá það á okkar sögu að við höfum ekki trú á því að rjúka til og skipta ef eitthvað gengur ekki.“
,,Ég held að það hljóti allir að sjá að í svona starfi þurfa allir tíma. Okkur gekk betur en taflan segir til um, ég held því fram.“
,,Allir þeir sem hafa skoðað þetta eru sammála mér í því. Það þarf að gefa svona hlutum tíma, það þýðir ekki að byrja aftur og aftur og aftur á því sama.“
,,Við höfðum trú á því að lengri tíma samstarf sé farsælt.“