Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is stýrir.
Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl.
Gestur þáttarins í dag var Jón Rúnar Halldórsson sem er formaður knattspyrnudeildar FH í Pepsi-deildinni.
Jón ræddi til að mynda Heimi Guðjónsson sem náði frábærum árangri sem þjálfari FH en var látinn fara síðasta sumar.
Síðan þá hefur Heimir gert mjög góða hluti í Færeyjum og vann deildarmeistaratitilinn með HB þar í landi.
Jón segir að það hafi verið erfitt að reka Heimi úr starfi en telur að það hafi verið rétt ákvörðun.
,,Það var erfitt, mjög erfitt en ég held líka með það að þú einhvern vegin finnur það að það sé eitthvað sem þarf að gera,“ sagði Jón.
,,Þú getur ekki gert breytingar á öllum sviðum því þá veistu ekki hvað virkar og hvað virkar ekki. Þú þarft að breyta einhverju einu atriði í einu.“
,,Ég held og trúi því ennþá að þetta hafi verið rétt ákvörðun, ekki bara fyrir okkur. Eins frábær þjálfari og Heimir er og frábær gaur, fótboltamaður og þú kemur hvergi að tómum kofanum þar. Ég held að það sé líka gott fyrir þann aðila að fá nýja áskorun. „
,,Ég leyfi mér að segja það að menn eiga eftir að taka bolla lengra inn í framtíð. Þá held ég að hann sé að koma frá Evrópu, til baka. Ég held að Færeyjar séu bara stop over.“
Heimir var orðaður við önnur lið hér á landi og á meðal annars Breiðablik. Jón Rúnar hafði ekki trú á að hann færi þangað.
,,Ég hef aldrei lagt mikinn trúnað á það. Það er líka vont fyrir þá, þjálfarann, hann hefur sínar þarfir og hann er fjölskyldumaður. Hann lifir ekki á sömu samlokunni alltaf.“
,,Það er erfitt líka að þegar þú ert búinn að vera lengi að semja um kaup og kjör í þessu ferli. Ég ætla að trúa því áfram að þetta hafi verið svipa á formanninn sem var í fínu lagi.“