Enska úrvalsdeildarfélagið Leicester staðfesti í gærkvöldi að eigandi félagsins, Taílendingurinn Vichai Srivaddhanaprabha, hefði látist í þyrluslysinu fyrir utan leikvang félagsins síðdegis á laugardag. Alls létust fimm í slysinu og hafa breskir fjölmiðlar nú birt nöfn þeirra.
Slysið varð skömmu eftir að leik Leicester og West Ham lauk á laugardag.
Auk Vichai létust í slysinu flugmenn vélarinnar, Eric Swaffer og kærasta hans, Izabela Roza Lechowicz. Eric þessi var reynslumikill þyrluflugmaður og hafði meðal annars starfað fyrir bresku konungsfjölskylduna, að því er Mail Online segir frá. Hann hafði um tuttugu ára reynslu. Eric hefur verið hampað sem hetju eftir slysið. Hann virðist hafa náð að beina þyrlunni frá mannfjölda sem var á jörðu niðri þegar hún skall niður. Er ljóst að mun verr hefði getað farið.
Izabela fæddist í Póllandi en flutti til Bretlands árið 1997 til að leggja stund á enskunám. Þar kynntist hún Eric og lærði síðar flug.
Þá létust í slysinu Nursara Suknamai, fegurðardrottning frá Taílandi sem starfaði sem aðstoðarkona Vichai. Annar úr teymi eigandans, Kaveporn Punpare, lést einnig í slysinu en hann var einn af aðstoðarmönnum hans.
Nú hafa breskir fjölmiðlar birt myndband af þessum hræðilega atburði úr öryggismyndavél en það má sjá hér að neðan.