Knattspyrnuheimurinn mun aldrei gleyma því sem Vichai Srivaddhanaprabha afrekaði með enska úrvalsdeildarfélagið Leicester City.
Í gær var staðfest að Srivaddhanaprabha hafi látist í þyrluslysi um helgina en þyrla hans hrapaði fyrir utan King Power völlinn eftir leik gegn West Ham í úrvalsdeildinni.
Srivaddhanaprabha eignaðist meirihlut í Leicester fyrir átta árum síðan og sá um rekstur félagsins ásamt fjölskyldu sinni.
Leicester var í næst efstu deild er hann tók við keflinu og hefur uppgangur liðsins síðustu ár verið ótrúlegur.
Þar ber helst að nefna tímabilið 2015/2016 þegar liðið kom öllum á óvart og vann ensku úrvalsdeildina.
Leicester hafði rétt bjargað sér frá falli tímabilið áður en allir komu saman ári seinna og gerðu óvænta atlögu að titlinum.
Það er það ótrúlegasta sem hefur gert í enskri knattspyrnu að margra mati en liðið átti í raun engan rétt á að berjast um titilinn og hvað þá fagna sigri í deildinni.
Hamingja, barátta og ástríða er það sem Srivaddhanaprabha stóð fyrir og er ólíklegt að eitthvað þessu líkt gerist aftur á lífsleiðinni.