Enska úrvalsdeildarfélagið Leicester staðfesti í gærkvöldi að eigandi félagsins, Taílendingurinn Vichai Srivaddhanaprabha, hefði látist í þyrluslysinu fyrir utan leikvang félagsins síðdegis á laugardag. Alls létust fimm í slysinu og hafa breskir fjölmiðlar nú birt nöfn þeirra.
Slysið varð skömmu eftir að leik Leicester og West Ham lauk á laugardag.
Auk Vichai létust í slysinu flugmenn vélarinnar, Eric Swaffer og kærasta hans, Izabela Roza Lechowicz. Eric þessi var reynslumikill þyrluflugmaður og hafði meðal annars starfað fyrir bresku konungsfjölskylduna, að því er Mail Online segir frá. Hann hafði um tuttugu ára reynslu. Eric hefur verið hampað sem hetju eftir slysið. Hann virðist hafa náð að beina þyrlunni frá mannfjölda sem var á jörðu niðri þegar hún skall niður. Er ljóst að mun verr hefði getað farið.
Izabela fæddist í Póllandi en flutti til Bretlands árið 1997 til að leggja stund á enskunám. Þar kynntist hún Eric og lærði síðar flug.
Þá létust í slysinu Nursara Suknamai, fegurðardrottning frá Taílandi sem starfaði sem aðstoðarkona Vichai. Annar úr teymi eigandans, Kaveporn Punpare, lést einnig í slysinu en hann var einn af aðstoðarmönnum hans.
Knattspyrnuheimurinn hefur sameinast í sorg sinni vegna slyssins. Vichai var í miklum metum hjá stuðningsmönnum og leikmönnum Leicester. Hann keypti félagið fyrir 39 milljónir punda árið 2010 og sex árum síðar hafði honum tekist hið ótrúlega. Leicester varð Englandsmeistari árið 2016, öllum að óvörum, og var það ekki síst skipulagi og dugnaði Vichai að þakka að liðið náði jafn langt og raun ber vitni.
Kasper Schmeichel, markvörður Leicester og danska landsliðsins, þekkti Vichai vel og var þeim vel til vina. Kasper var einn af þeim fyrstu sem komu að slysinu og varð vitni að því þegar eldur kom upp í henni stuttu eftir að hún hrapaði. „Ég trúi ekki því sem ég varð vitni að. Þetta var svo óraunverulegt.“
Hann skrifaði svo sína hinstu kveðju til Vichai í gær. „Ég hef aldrei kynnst manni eins og þér. Þú snertir okkur öll og breyttir knattspyrnunni. Þú gafst öllum von um að hið ómögulega væri mögulegt,“ sagði Kasper og bætti við að þegar Vichai fékk hann til félagsins árið 2011 hafi eigandinn lofað honum að félagið yrði komið í Meistaradeild Evrópu innan sex ára.
„Þú veittir mér innblástur og ég hafði trú á þér. Þú bókstaflega lést drauma mína rætast,“ sagði Kasper sem spilaði svo með Leicester í Meistaradeildinni tímabilið 2016/17.
Þyrlan var á leið út á flugvöll í Luton þegar slysið varð og er Vichai sagður hafa verið á leið heim til Taílands. Vitni segja að þyrlan hafi hreinlega drepið á sér í loftinu áður en hún skall til jarðar á bílastæðinu fyrir utan völlinn. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur yfir en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað fór úrskeiðis með þessum hrikalegu afleiðingum.