Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ristjóri 433.is stýrir.
Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl.
Fyrsti gestur þáttarins er Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins.
Freyr er í dag eins og áður sagði aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins en hann tók við því starfi fyrr á árinu og starfar við hlið Erik Hamren.
Talað var um að Freyr gæti tekið við sem aðalþjálfari af Heimi en hann hafði þó ekki áhuga á því. Hann bjóst ekki við að honum yrði boðið starfið.
,,Ég hélt það ekki og í raun var ég ekki að vonast eftir því. Mér þótti vænt um að heyra það sem þú heyrðir greinilega líka frá leikmönnum. Þeir treystu mér í þetta og einhverjir vildu það,“ sagði Freyr.
,,Það ýtti undir það að þegar Erik er ráðinn og það er ákveðið að breyta til, Helgi og Gummi fara líka að mér fannst ég bara ekki vilja skilja strákana eftir með alveg nýtt teymi. Ég vildi vera til staðar fyrir þá og vera einhver balance þarna á milli.“
,,Mín samskipti við leikmenn skiptu miklu máli. Ég hef átt í góðum samskiptum við þá, ég er enginn vinur þeirra en það er fagleg virðing þarna á milli.“
,,Ég var ekki tilbúinn að taka liðið einn sem aðalþjálfari. Þú getur ímyndað þér hvað það væri búið að jarða mig ef ég hefði tekið liðið núna og við hefðum haldið áfram þessum úrslitum sem hafa verið. Fjölskyldan mín býr á Íslandi sko! Erik getur farið til Svíþjóðar.“
Ísland tapaði risastórt 6-0 gegn Sviss í fyrsta leik Erik Hamren í Þjóðadeildinni en Freyr vill að fólk fari að gleyma þeim leik.
,,Þessi leikur gegn Sviss sem mig langar að hætta að tala um, það er frávik. Þetta gerist aldrei aftur. Þetta var hrikalegt og það er búið að tala nóg um þetta.“
,,Hinir tveir leikirnir, þetta var kannski ekki sannfærandi tap hérna heima gegn Sviss. Það var leikur sem ég vil meina að við hefðum átt að vinna. Þetta eru frábært lið og allt það.“
Það hjálpar íslensku strákunum ef fólk byrjar að afskrifa þá. Freyr vonar að sem fleiri byrji að tala um að það sé kominn tími á breytingar.
,,Það er klárlega ljós við enda ganganna. Ég vona að fólk haldi áfram að tala um að 28 ára gömlu strákarnir séu að verða útbrunnir. Að það þurfi að skipta þeim út því það mótiverar mig og þeir eiga svo mikið inni þessir gaurar.“
,,Ég finn það alveg að þeir eru ekki saddir, ég er ekki saddur, Erik er ekki saddur. Við erum ekki hættir. Við höfum ekki unnið leik í heilt ár en það er ástæða fyrir því. Ef einhver hélt að Ísland myndi vera í því að vinna leiki í 20 ár í röð þá er það rangt. Það var alltaf að fara koma einhver dýfa.“
,,Nú þurfum við bara að koma okkur úr þeirri dýfu því hæfileikarnir eru til staðar. Resourcarnir í kringum liðið eru til staðar ennþá. Það byrjar undankeppni í mars og þar þurfum við að vera í standi og þá förum við á EM.“
Ísland þarf á sínum bestu leikmönnum að halda og segir Freyr að það sé mikill munur á liðinu ef það vantar nokkrar stjörnur í leikmannahópinn.
,,Við þurfum leikmennina sem eru að spila í bestu deildunum. Þeir eru að spila í bestu deildunum og eru með gríðarlega reynslu og þetta eru líka risastórir karakterar.“
,,Þú finnur fyrir því þegar Jóhann Berg kemur og Alfreð kemur inn núna. Þetta eru strákar sem á reyndar sitt hvorn hátt, gustar af. Liðið lyftist alveg upp við þetta.“
,,Þeir eru að eldast strákarnir og það verða meiri meiðsli núna en fyrir fjórum eða fimm árum síðan. Við verðum að vera undirbúin fyrir það.“
,,Þegar þeir eru ekki, ef tveir lykilmenn eru off þá þurfum við að vera betur búnir til að koma til baka og gera það sem þarf til að ná í úrslit þó að lykilmenn séu í burtu.“