Jose Mourinho, stjóri Manchester United, ræddi við blaðamenn í kvöld eftir 3-2 sigur liðsins á Newcastle.
Framtíð Mourinho er talin vera í hættu en United lenti 2-0 undir gegn Newcastle í dag og vann svo að lokum 3-2 sigur.
Mourinho segir að það sé hægt að kenna sér um allt þessa stundina og vill að leikmenn sínir spili fyrir félagið en ekki sig.
,,Þeir gáfu allt í þetta og ég vil ekki segja að þeir hafi verið heppnir. Við börðumst svo mikið og strákarnir áttu þetta skilið,“ sagði Mourinho.
,,Jafnvel ef leikurinn hefði endað 2-2 þá hefði það verið jákvætt. Það er enginn sem getur lofað því að vinna fótboltaleiki en atvinnumenn eiga alltaf að gera sitt besta.“
,,Leikmennirnir spila ekki fyrir þjálfarann, ef þeir gera það þá eru þeir ekki góðir atvinnumenn svo það er fáránlegt að tala um það.“
,,Spilarðu betur eða verr ef þér líkar illa við þjálfarann? Það eina sem ég bið um er að leikmennirnir gefi allt í verkefnið.“
,,Vinur minn var að segja við mig í morgun að ef það byrjar að rigna í London á morgun, þá er það mér að kenna. Rifrildin vegna ‘Brexit’ eru mér að kenna.“
,,Ég hef verið tilbúinn fyrir þetta allt, það er verið að elta mig uppi, það er of mikið. Þetta er mitt líf sem ég elska og hef unnið að því að komast hingað síðan ég var krakki.“