

Þórdís Edda Hartardóttir fékk verðlaun fyrir frammistöðu sína í Inkasso-deild kvenna í gær en hún var valin besti leikmaður deildarinnar.
Þórdís hætti á sínum tíma að iðka knattspyrnu eftir að hafa greinst með þunglyndi árið 2010. Hún var frábær fyrir Fylki í sumar.
Þórdís ræddi við blaðamanninn Arnar Björnsson hjá Stöð 2 og fór yfir síðustu ár og hvernig hún hefur tekið á sínum málum.
„Ég greinist með þunglyndi 2010 eftir að samningi mínum lýkur hjá Breiðablik. Það tók mig langan tíma að ná bata og ná aftur að verða ég sjálf eftir þetta þunglyndi,“ sagði Þórdís.
Þórdís segist hafa fengið góðan stuðning frá fólki í kringum sig og þá frekar á Álftanesi en hjá sínu gamla félagi í Kópavogi.
„Góður stuðningur frá fólki í kringum mig og skilningur frá liðsfélögum mínum, sérstaklega í Álftanesi, þar fékk ég tíma til að dafna og finna fyrir mínu eigin sjálfstrausti byggjast aftur upp. Eitthvað sem ég hafði ekki fundið fyrir lengi. Ég fékk fríið til að gera það hjá þeim.“
„Ég man sérstaklega þegar ég sagði liðsfélögum mínum í Breiðablik frá þessu er ég var beðinn um að koma aftur, sem ég gerði svo ekki. Þegar ég sagði þeim að ég væri þunglynd þá mætti ég svo miku skilningsleysi og fólk vissi ekki hvernig það átti að höndla þetta. Ég fékk engan stuðning.“
,,Mér finnst mikilvægt að fólk viti það að ég hafi gengið í gegnum þetta til að ungir einstaklingar sem eru að ganga í gegnum það sama átti sig á það að það sé hægt að ná bata með mikilli vinnu og það er hægt að koma til baka og ná árangri aftur þó maður hafi veikst.“
Þórdís er himinlifandi með verðlaunin fyrir frammistöðu sína og segir að hún hafi ekki búist við þessu fyrir nokkrum árum.
,,Það er ótrúlega stórt fyrir mig í raun og veru. Ég gat ekki ímyndað mér fyrir þrem eða fjórum árum að ég myndi fá þessa viðurkenningu og að fólk myndi taka eftir því hvað ég væri að standa mig vel. Mér fannst ég alltaf falla niður fyrir hópinn og væri bara að glíma við mína vanlíðan í friði. Þetta er stórt skref í að viðurkenna að ég sé búin að sigrast á þunglyndinu.“