Það er mikið vesen í gangi hjá liði Oldham Athletic á Englandi en liðið leikur í fjórðu efstu deild.
Oldham átti ekki gott tímabil á síðustu leiktíð og féll úr League One eða þriðju efstu deild.
Liðið var þó virkilega nálægt því að halda sæti sínu en jafntefli í síðasta leik gegn Northampton reyndist ekki nóg og var liðið einu stigi frá öruggu sæti.
Oldham hefur byrjað nokkuð vel á þessu tímabili en liðið hefur unnið fjóra og gert fimm jafntefli úr fyrstu 11 leikjunum.
Leikmenn liðsins eru þó mjög ósáttir en þeir vilja meina að félagið hafi ekki staðið við launagreiðslur á leiktíðinni.
The BBC greinir nú frá því að leikmenn félagsins hóti því að fara í verkfall fyrir leik gegn Carlisle á laugardaginn.
Leikmenn heimta að fá greidd laun fyrir næsta leik en félagið hefur ekki tjáð sig um málið að svo stöddu.