Hallur Kristján Ásgeirsson, knattspyrnuþjálfari hjá Aftureldingu og einn markahæsti leikmaður í sögu deildarkeppni á Íslandi óttast um komandi kynslóð.
Ástæðan er sú að tölvuleikurinn, Fortnite hefur heltekið marga unga krakka sem þrá ekkert heitara en að sitja fyrir framan tölvuna og spila.
,,Það er gjörsamlega óþolandi að horfa uppá unglinga og jafnvel börn spila þennan helvítis leik „Fortnite“,“ skrifar Hallur í Facebook færslu sinni sem vakið hefur gríðarlega athygli.
Hallur er faðir og hefur tekið eftir því að 7 ára strákurinn hans vill meira og meira spila þennan leik en unglingurinn hans var alltaf í leiknum.
,,Ég hef orðið vitni að þessu síðustu vikur. Hef séð minn ungling verða heltekinn af þessum leik og nú er 7 ára guttinn að biðja um að fá að spila. Ég held aðstæður séu miklu verri en fólk heldur. Krakkarnir loka sig inni svo tímunum skiptir og spjalla sín á milli í gegnum bluetooth eða online eins og þau kalla þetta. Tala sín á milli hvernig á að komast eitthvað til þess að meiða eða drepa einhvern og tala um að eignast einhverja hluti í þessum leik sem ég hef aldrei heyrt um.“
Hallur segist hafa rætt þetta vandamál við aðra þjálfara í fótboltanum og að íþróttafélögin viti af vandamálinu.
,,Ég veit að heilu íþróttafélögin hafa haft tal á þessu og ég og aðrir þjálfarar höfum rætt þetta okkar á milli og ég átti samtal við Kennara sem sagði mér að þetta væri vandamál í skólum því að krakkar og unglingar eru að ræða Fortnite í tímum og meira að segja að stelast í símana sína til þess að spila eða skoða vídeó af þessum tölvuleik.“
Hann minnir foreldra á að leikjatölvur séu ekki barnapía fyrir foreldra.
,,Rífum okkur upp kæru vinir. Tölvan á ekki að vera barnapía fyrir okkur foreldrana. Hjálpumst að og hendum krökkunum út að leika eða hreinlega gerum eitthvað með þeim.“