Danska landsliðið tapaði fyrir Slóvakíu í vináttuleik í kvöld en leikurinn fór fram í Slóvakíu.
Danska landsliðið var ekki skipað atvinnumönnum en stjörnur liðsins eiga í deilum við danska knattspyrnusambandið.
Það voru því allir að spila sinn fyrsta landsleik í kvöld en leikmenn í efstu tveimur deildum í heimalandinu máttu ekki taka þátt.
Christian Offenberg leiddi sóknarlínu danska liðsins í kvöld en hann er sölumaður og spilar fyrir smáliðið Avarta.
Hægri bakvörðurinn Simon Vollesen spilar í fimmtu efstu deild en hann er einnig í námi ásamt því að spila af og til.
Kannski frægasti leikmaður liðsins var Rasmus Johansson en hann er miðjumaður sem spilar í þriðju efstu deild.
Johansson er með marga fylgjendur á Instagram og YouTube en hann er frægur fyrir að leika listir sínar með boltann.
Annars voru margir leikmenn úr danska futsal liðinu sem fengu tækifæri í kvöld í 3-0 tapinu.