Lið Rochdale á Englandi spilaði við Bury í Checkatrade bikarnum á Englandi í gær. Rochdale leikur í þriðju efstu deild Englands.
Rochdale hafði betur í leiknum með tveimur mörkum gegn einu en bæði mörk liðsins komu í fyrri hálfleik.
Stuttu áður en liðið skoraði fyrra mark sitt hafði varnarmaðurinn Luke Matheson komið inná sem varamaður.
Matheson kom inná fyrir Connor Randall sem meiddist í byrjun leiks og gat ekki haldið áfram keppni.
Matheson varð í kjölfarið sá yngsti til að spila fyrir aðallið Rochdale en hann er aðeins 15 ára gamall og er fæddur árið 2002.
Matheson var að spila sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið og átti hann frábæra innkomu. Hann var valinn maður leiksins í sigrinum.
Ljóst er að um gríðarlegt efni er að ræða en Matheson fagnar 16 ára afmæli sínu þann 2. október næstkomandi.