Lars Lagerback landsliðsþjálfari Noregs og fyrrum þjálfari Íslands er nokkuð harkalega gagnrýndur þar ytra þessa stundina.
Lagerback tók þá ákvörðun að banna leikmönnum karlalandsliðsins að fara að horfa á kvennalandsliðið í gær.
Noregur tryggði sig inn á HM í Frakklandi með því að vinna Holland í gær. Flestir bjuggust við að karlalandsliðið myndi mæta á svæðið enda hópurinn saman þessa dagana.
,,Ég vil óska norska liðinu til hamingju með sætið á HM, ég vil samt útskýra mál mitt. Það hefur fólk komið til mín og ég hef séð margar greinar þess efnis um að liðið hafi ekki mætt á leikinn þeirra, ég virði þær skoðanir en þetta var mín ákvörðun,“ sagði Lagerback.
Lagerback og félagar undirbúa sig undir leik gegn Kýpur í Þjóðardeildinni á heimavelli.
,,Það verður að vera almennilegur undirbúningur hjá okkur, ég taldi það ekki henta okkur að fara á völlinn. Það hefur ekki neitt með það að gera að við berum ekki virðingu fyrir stelpunum. Rútuferð, ekki neinn kvöldmatur á réttum tíma var ekki í lagi.“