Zlatan Ibrahimovic, leikmaður LA Galaxy, hefur byrjað frábærlega í Bandaríkjunum en hann fór þangað í mars.
Zlatan var á mála hjá Manchester United áður en hann samdi við Galaxy en hann er 36 ára gamall í dag.
Framherjinn er þó enn í frábæru formi og skoraði þrennu fyrir Galaxy í nótt er liðið mætti Orlando City.
Zlatan og félagar unnu 4-3 sigur í afar skemmtilegum leik og skoraði sá sænski þrennu.
Orlando leiddi 3-2 í síðari hálfleik er Zlatan tók málin í sínar hendur og skoraði tvö mörk með stuttu millibili til að tryggja Galaxy sigur.
Zlatan hefur leikið 17 leiki fyrir Galaxy í MLS deildinni og hefur skorað í þeim 15 mörk.