Stjarnan kom sér á toppinn í Pepsi-deild karla í dag er liðið heimsótti botnlið Keflavíkur í 11. umferð deildarinnar.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Hilmar Árni Halldórsson gerðu mörk Stjörnunnar í þægilegum 2-0 sigri.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Stjörnumenn voru yfirvegaðir og í raun bara flottir í þessum leik. Gáfu Keflvíkingum aldrei möguleika á að komast inn í leikinn.
Guðjón Baldvinsson kann ekki bara að skora heldur er hann frábær samherji. Lagði upp bæði mörk Stjörnumanna í dag.
Byrjunin var rosaleg hjá Stjörnunni. Keflvíkingar fengu ekki mínútu á boltanum án þess að vera hundeltir út um allan völl af þeim hvítklæddu.
Hilmar Árni Halldórsson komst á blað í dag. Er það frétt? Skorar alltaf. Hann ætlar að ná þessu markameti.
Mínus:
Keflavík er ekki nógu gott lið fyrir Pepsi-deildina. Það er langt síðan við höfum fengið svona slakt lið sem í raun á ekki séns gegn öðrum liðum deildarinnar.
Maður hefði viljað sjá Stjörnuna bæta bara við eftir annað markið. Keflavík var engin fyrirstaða fyrir toppliðið.
Það á ekki að vera svona mikill gæðamunur á þessum liðum, þau spila bæði í Pepsi-deildinni. Auðvitað er Stjarnan með sterkara lið en þetta var bara miklu meira en það.
Þrjú stig eftir 11 umferðir. Keflavík er á leið niður í Inkasso-deildina og má byrja að undirbúa sig núna.