Andreas Pereira, leikmaður Manchester United, mun fá tækifæri á næstu leiktíð undir stjórn Jose Mourinho.
Pereira greinir sjálfur frá þessu en hann hefur undanfarin tvö ár spilað með Valencia og Granada á láni.
Pereira er 22 ára gamall í dag en gekk í raðir United er hann var aðeins 16 ára gamall. Hann á að baki 13 leiki fyrir félagið.
,,Ég sagði við Mourinho að ég væri tilbúinn í samkeppnina,“ sagði Pereira í samtali við belgískan fjölmiðil.
,,Hann var ánægður með að heyra það og sagði mér að ég myndi fá tækifæri. Nú sjáum við hvernig undirbúningstímabilið fer.“
,,Ég vonast til að sannfæra hann þar. Að ná árangri með Manchester United er enn draumurinn.“