Roberto Martinez, þjálfari Belgíu, hefur ekki of miklar áhyggjur af Neymar fyrir leik Belga og Brasilíu í 8-liða úrslitum HM.
Martinez telur sig vera með vopn sem getur stöðvað Neymar en það er bakvörðurinn Thomas Meunier.
Meunier og Neymar eru samherjar hjá Paris Saint-Germain í dag en þeir hafa áður mæst er Neymar var á mála hjá Barcelona.
,,Þetta var ein besta frammistaða sem ég hef séð frá Thomas Meunier varnarlega og hann spilaði einn sinn besta leik gegn Neymar,“ sagði Martinez.
,,Paris Saint-Germain vann Barcelona á þessum degi 4-0 og Thomas Meunier varðist Neymar virkilega vel.“
,,Hann var einnig ógnandi fram á við og lagði upp fjórða mark liðsins. Þetta var fullkomin frammistaða.“