Það var mikil stemning á Ingólfstorgi í dag er sænska knattspyrnulandsliðið mætti svissneska á HM í Rússlandi.
Svíar hafa komið mörgum á óvart á mótinu í sumar og tryggðu sér farseðilinn í 8-liða úrslit með 1-0 sigri á Sviss í dag.
Það voru ófáir aðdáendur sem gerðu sér leið á Ingólfstorg í dag til þess að sjá Svía spila leikinn sem hófst klukkan 14:00.
Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, var staddur í miðbænum og tók á móti samlöndum sínum og öðrum sem fylgdust með leiknum.
Juholt er fyrrum formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins en hann var ráðinn sendiherra Svíþjóðar á Íslandi í lok síðasta árs.
,,Frábær karl, mjög eðlilegur og elskulegur. Tók mjög vel á móti fólki – öllum!“ sagði Sveinn Hjörtur Guðfinnsson um Juholt.
Hér fyrir neðan má sjá Juholt ásamt áhorfendum á Ingólfstorgi í dag.
Myndirnar tók Sveinn Hjörtur Guðfinnsson og gaf hann DV góðfúslega leyfi til að birta þær.