Óhætt er að segja að 61 árs stuðningsmanni Manchester United hafi verið brugðið þegar hann rakst á eitt af átrúnaðargoðum sínum í miðjum frumskógi í Kólumbíu.
Maðurinn sem um ræðir heitir Michael Payne og var hann á ferðalagi um Suður-Ameríku á dögunum þegar hann gekk á eftir manni sem honum þótti kunnuglegur.
Þarna var á ferðinni enginn annar en spænski miðjumaðurinn Juan Mata sem var staddur í Kólumbíu í fríi ásamt fjölskyldu sinni. Payne segir við breska fjölmiðla að Mata sé einn af hans uppáhaldsleikmönnum en Spánverjinn var ekki valinn í lokahóp spænska landsliðsins sem fell úr leik á HM eftir tap gegn Rússum á sunnudag.
Michael segist hafa rætt stuttlega við Mata, meðal annars um æfingaferðalag Manchester United sem er framundan í Bandaríkjunum og tímabilið sem er framundan.
Mata, sem varð heimsmeistarari með Spánverjum árið 2010, hefur leikið með Manchester United frá árinu 2014. Hann hefur skorað 39 mörk í 186 leikjum. Þess má til gamans geta að í fyrrasumar var Juan Mata í sumarfríi á Íslandi.