Það var mjög létt yfir Aroni Einari Gunnarssyni fyrirliða Íslands og Heimi Hallgrímssyni þjálfara liðsins á fréttamannafundi í gær. Ísland mætir Króatíu síðasta leik í riðlinum á HM í dag.
Allt annað en sigur mun senda Ísland heim og sigur gæti ekki dugað, það fer eftir úrslitum í leik Argentínu og Nígeríu. Sú regla er á fundum FIFA að fréttamaður þarf að kynna sig með nafni og hjá hvaða fyrirtæki hann starfi. Reglan er vegna þess að fundirnir eru oft fjölmennir.
Íslenskir fjölmiðlar eru fámennir og eiga í góðu sambandi við leikmannahópinn, þar þekkja því leikmenn og þjálfarar hvað fjölmiðamenn heita og hvar þeir starfa.
Meira:
Fréttamaður kynnti sig frá Bleiku og bláu – Aron Einar grét úr hlátri og Heimir bað um forsíðuna
Hörður Snævar Jónsson sem er meðreiðarsveinn minn hér úti ákvað að grínast á fundi dagsins og kynnti sig frá Bleiku og bláu. Það vakti mikla kátínu hjá Aroni Einari sem átti mjög erfitt með sig. ,,Þessi var góður Höddi,“ sagði Aron Einar við Hörð eftir spurningu hans.
Erlendir fjölmiðlar eru byrjaðir að fjalla um þetta mál og segir í grein á Guardian að þetta sanni góðan liðsanda í kringum íslenska landsliðið.
,,Aron Einar talaði um ótrúlegan liðsanda í íslenska hópnum og sagði að það væri alltaf gaman. Eitt atvik á fréttamannafundinum fyrir leik sannaði það. Blaðamaður sem spyr spurningu þarf að segja frá hvaða aðila hann er. Einn íslenskur fréttamaður kynnti sem fréttamann frá Bleiku og bláu, klámblaði. Aron Einar gat ekki haldið aftur af hlátrinum,“ skrifar David Hytner í Guardian.