Zinedine Zidane er hættur sem knattspyrnustjóri Real Madrid, aðeins fimm dögum eftir að liðið tryggði sér sinn þriðja Meistaradeildartitil á þremur árum.
Þessi tíðindi koma eflaust mörgum á óvart enda varð Real Madrid í fyrra fyrsta liðið til að vinna Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð. Sigurinn á Liverpool um liðna helgi var því sá þriðji á jafn mörgum árum. Gengi Madridarliðsins í deildinni olli þó vonbrigðum í vetur og varð liðið að gera sér þriðja sætið að góðu eftir slakan árangur framan af tímabili sérstaklega.
Þessi ákvörðun Frakkans var tilkynnt á blaðamannafundi í Madrid í morgun. Á honum sagði Zidane að hann muni líklega ekki þjálfa á næsta tímabili. Hann kvaðst hafa verið nálægt því að skrifa undir nýjan samning á dögunum en síðan skipt um skoðun. Hann sagðist hafa rætt málið við fyrirliða liðsins, Sergio Ramos, og Ramos sýnt honum stuðning.
Zidane tók við stjórn Real Madrid í janúar 2016 eftir að Rafael Benitez hætti með liðið. Zidane sagðist vera þreyttur enda taki það mikið á að vera knattspyrnustjóri stórliðs. Hann sagði fyrir nokkrum mánuðum að um leið og hann fyndi að hann gæti ekki gefið meira af sér myndi hann hætta.
Zidane útilokaði ekki að hann gæti snúið aftur sem stjóri félagsins í náinni framtíð. Núna væri rétti tímapunkturinn til að stíga til hliðar.
Florentino Perez, forseti Real Madrid, sat við hlið Zidane á blaðamannafundinum. Hann sagði að ákvörðun Zidane hefði komið stjórn félagsins á óvart. Hann sagðist ekki hafa hugmynd um hver komi til með að taka við starfinu.