Rene Meulensteen, fyrrum þjálfari hjá Manchester United er hrifinn af Jesse Lingard, leikmanni liðsins.
Lingard hefur verið lykilmaður í liðinu á þessari leiktíð og hefur verið duglegur að skora á mikilvægum augnablikum.
Þjálfarinn fyrrverandi segir að hann hafi alltaf verið hrifinn af Lingard sem leikmanni og líkir honum við Andres Iniesta, fyrirliða Barcelona.
„Mér finnst mikið um líkindi í leik þeirra, fyrir mér hefur Lingard alltaf verið hinn enski Andres Iniesta,“ sagði Meulensteen.
„Hann er góður að finna opin svæði, líkt og Iniesta og hann er mjög hreyfanlegur. Það eina sem vantaði uppá hjá honum voru mörk en nú er hann líka byrjaður að skora.“
„Það væri hægt að fljúga honum til Barcelona núna og láta hann spila stöðuna hans Iniesta og hann myndi leysa það vel,“ sagði hann að lokum.