Wigan tók á móti Manchester City í enska FA-bikarnum í kvöld en leiknum lauk með 1-0 sigri heimamanna.
Það var Will Grigg sem skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu og Wigan fer því áfram í 8-liða úrslitin en City er úr leik.
Pep Guardiola, stjóri Manchester City var svekktur með að vera úr leik í bikarnum í ár.
„Ég vil óska Wigan til hamingju. Við gerðum allt sem við gátum til þess að skora en við gerðum líka slæm mistök og þau kostuðu okkur í kvöld. Við töpuðum og ég verð að óska sigurvegurunum til hamingju,“ sagði Guardiola.
„Dómarinn gaf rautt spjald og það er bara þannig, það gerðist ekkert á milli mín og Paul Cook, þetta var ekki neitt. Við spiluðum þennan leik ágætlega, við reyndum að sækja og búa eitthvað til.“
„Þeir áttu eitt skot á markið og þeir skora úr því. Mínir menn reyndu og ég dæmi þá ekki af úrslitunum, ég er ánægður með það að þeir gáfust aldrei upp. Wigan vann og fer áfram,“ sagði hann að lokum.