

Graeme Souness, fyrrum fyrirliði Liverpool er ekki mikill aðdáandi Paul Pogba, miðjumanns Manchester United.
Pogba kom til United sumarið 2016 fyrir metfé en hann var dýrasti leikmaður heims þangað til síðasta sumar þegar Neymar fór til PSG frá Barcelona.
Miklar vonir eru bundnar við Pogba en hann leit ekki vel út í tapi liðsins gegn Tottenham á dögunum og var tekinn út af í seinni hálfleik.
„Paul Pogba gæti alveg gert stórkostlega hluti í framtíðinni en hann er langt frá því að vera frábær leikmaður,“ sagði Souness.
„Eitt af hans stærstu vandamálum er það að hann tekur enga ábyrgð sem miðjumaður. Hann er 24 ára gamall og kotaði tæplega 90 milljónir punda, samt skilur hann ekki stöðuna almennilega.“
„Hann spilar eins og einhver krakki í sjöunda flokki sem gerir ekkert annað en að elta boltann á skólalóðinni,“ sagði Souness að lokum.