Norðurálsmótið fer fram um helgina
Búist er því að á milli sex og sjö þúsund manns leggi leið sína á Akranes yfir helgina en þá fer Norðurálsmótið í knattspyrnu fram. En þar leika um 1500 drengir á aldrinum 6 til 8 ára sem eiga það sameiginlegt að vera í 7. flokki karla í knattspyrnu.
Íbúatala bæjarins mun því tvöfaldast. Mótið á því eftir að setja mikið mark á bæjarlífið líkt og fyrri ár. Samtals verða fótboltalið frá 33 knattspyrnufélögum á svæðinu. Drengjunum býðst að gista í skólastofu og fjölskyldum þeirra á tjaldstæði í bænum.
Í janúar var tekin ákvörðun um að flýta mótinu um eina viku vegna EM í fótbolta en opnunarleikurinn á mótinu fer fram annað kvöld.
Mikil undirbúningsvinna er á bak við mót sem þetta, en ríflega 900 sjálfboðaliðar, flestir foreldrar barna sem stunda íþróttir hjá ÍA, koma að þeirri vinnu. Leikið verður á æfingasvæði ÍA og í Akraneshöllinni.