„Ég er ekki hræddur við neitt og geri allt sem ég get og er með breitt bak“
Hermann Hreiðarsson, fyrrum landsliðsmaður í fótbolta og þjálfari meistaraflokks Fylkis, var sagður hafa hafa tekið Hannes Gústafsson, stjórnarmann í ÍBV hálstaki, líkt og DV greindi frá í gær.
„Þetta var nú ekki hálstak, ég rétt lyfti á honum hökunni á meðan við vorum að tala saman, ekkert merkilegt,“ sagði Hermann í samtali við DV aðspurður um atburði gærkvöldsins. Aðspurður hvort hann hafi fundist ástæða til að biðjast afsökunar segir hann málið vera búið. „Við munum tala saman eins og fullorðnir menn gera,“ sagði hann.
Sjá nánar: Hermann tók stjórnarmann ÍBV hálstaki: „Menn bregðast bara misvel við tapi“
„Við höfum slegist og fíflast, þetta er topp maður og ekkert út á hann að setja. Menn eru kannski að kýtast og æsast stundum. Það má alveg aðeins rífa kjaft við hvorn annan í hita leiksins,“ sagði Hermann og kvaðst nánast vera búinn að gleyma uppákomunni þegar hann hafi komið heim eftir leikinn.
Hermann kveðst ekki eiga við reiðivandamál að stríða en aðspurður hvort hann eigi í erfiðleikum með að hafa hemil á skapi sínu svaraði þjálfarinn:
„Ég er búinn að spila sjö til átta hundruð leiki og hef aldrei verið rekinn út af fyrir kjaft. Allir mega hafa skoðanir. Þeir sem þekkja mig og þekkja mig rétt, þá get ég æst mig upp eins og hver annar maður.“
„Ég er alltaf léttur, gleðin fer aldrei og ég er mikill keppnismaður. Það er það sem hefur fleygt mér áfram,“ sagði hann og kveðst ætla sér stóra hluti með Fylki í sumar.
Aðspurður hvort hann sé hræddur við að missa starf sitt sem þjálfari félagsins, segir hann svo ekki vera en Fylkismenn eru á botni Pepsi-deildarinnar og hafa tapað öllum sínum leikjum.
„Ég er ekki hræddur við neitt og geri allt sem ég get og er með breitt bak,“ sagði Hermann að lokum.