

Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Portúgals, er á því máli að Cristiano Ronaldo sé ekki að hugsa um það að ná þúsund mörkum á sínum ferli.
Það eru ansi athyglisverð ummæli en Ronaldo verður 41 árs gamall í febrúar og spilar í dag í Sádi Arabíu.
Ronaldo er búinn að skora 955 mörk á sínum ferli sem fótboltamaður og eru flestir á því máli að hann muni ekki hætta þar til talan nær þúsund.
Martinez segir þó að Ronaldo sé ekki að hugsa um þetta ákveðna afrek og að hann njóti þess að spila fótbolta á meðan tækifærið er til staðar.
,,Hann er á góðum stað á sínum ferli í dag, hann hefur afrekað það sem hann hefur gert því hann lifir fyrir daginn í dag,“ sagði Martinez.
,,Þegar hann talar um mörk þá vill hann ekki tala um að ná þúsund mörkum eða spila ákveðið magn af leikjum…“
,,Hans leyndarmál er að hann er besta útgáfan af sjálfum sér í dag og nýtur hvers dags. Þessi tala mun endurspegla daginn sem hann hættir, ég held að hann sé ekki með neitt ákveðið markmið.“