

Veitingastaður Pep Guardiola í Manchester er að loka dyrum sínum og er sagður hafa orðið fórnarlamb harðra skattabreytinga í nýju fjárlagafrumvarpi bresku Verkamannaflokksins undir forystu Rachel Reeves fjármálaráðherra.
Veitingastaðurinn Tast Catala, sem er staðsettur við fína götu í Manchester, var reglulega notaður af Guardiola til að taka á móti nýjum leikmönnum Manchester City og meðlimum framkvæmdastjórnar félagsins.
Þar sáust einnig þekktir knattspyrnumenn og þjálfarar á borð við Mikel Arteta og Kevin De Bruyne, sem nutu meðal annars rétta á borð smokkfisk og meira til.

Guardiola opnaði staðinn fyrir sjö árum ásamt Michelin-stjörnukokkinum Paco Pérez með það að markmiði að færa bragð af heimalandi þeirra, Katalóníu, til Englands.
Í yfirlýsingu á heimasíðu veitingastaðarins á þriðjudag kom fram að Tast Catala muni loka núna á laugardaginn. Þar segir að reksturinn hafi staðið frammi fyrir óvenju erfiðum markaðsaðstæðum og auknum kostnaði.
Rachel Reeves hefur sætt harðri gagnrýni fyrir breytingar á fyrirtækjasköttum, sem þýða að veitingastaðir og krár þurfi að bera aukinn kostnað. Samtök veitingageirans, UKHospitality, segja að meðalhækkun gjalda nemi allt að 76 prósentum, sem hefur vakið ótta um að hundruð staða til viðbótar gætu neyðst til að loka á næstunni.