

„Tími er kominn til að kynna manninn sem hefur verið leynivopn í endurreisn írska landsliðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, mann sem sjaldan leitar fyrirsagna, þótt hann eigi þær sannarlega skili,“ svona hefst frétt sem Mirror í Írlandi birti í gærkvöldi.
Paddy McCarthy er ekki aðeins talinn besti leikmaðurinn sem aldrei hefur fengið A-landsleik fyrir Írland, heldur einnig einn af bestu írsku þjálfurunum á Englandi í dag. Hann vinnur sex daga vikunnar með Crystal Palace og frídagar eru fáir, nema þegar landsleikjahlé gera þjálfurum kleift að slaka á. En McCarthy nýtir þá daga til að vinna fyrir Írland og ferðast með Heimi um Evrópu.

Heimir nefndi McCarthy sérstaklega um helgina og setti hann í sérstakan sess. „Stundum horfi ég á Paddy og John O’Shea og hugsa: Af hverju er ég aðalþjálfari, en ekki aðstoðarmaður þeirra?“ sagði Heimir hlæjandi.
„Ég get ekki hrósað þeim nóg.“
McCarthy kýs þó að halda sér fjarri sviðsljósinu. En vilji menn skilja andrúmsloftið og breytta stemningu í írska hópnum, eða föstu leikatriðin sem leiddu til fyrsta marks Troy Parrott gegn Portúgal, verður þú að þekkja manninn sem Heimir treystir blint.
Ferill McCarthy er sannkallað knattspyrnulíf, mótað af hörðum vinnudögum, ferðalögum, meiðslum og þúsund litlum góðverkum sem halda ungum leikmönnum á floti. Hann hefur lært af meisturum eins og Roy Hodgson, Kevin Keegan, Tony Pulis, Neil Warnock og fleirum. Fyrir McCarthy er fótbolti handverk, ævilöng ást sem hann er staðráðinn í að endurgjalda.