
Það var vægast sagt hiti í hljóðveri á Suðurlandsbraut í dag þegar Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson tókust á um málefni Halldórs Árnasonar í Þungavigtinni.
Halldór fór í viðtal við Fótbolta.net á mánudag og tjáði sig þar í fyrsta sinn um brottrekstur sinn úr starfi þjálfara karlaliðs Breiðabliks fyrir rúmum mánuði síðan.
Þar bar hæst að Halldór sagði aðila í kringum Breiðablik hafa reynt að skapa óróa innan búningsklefans í Kópavoginum nokkrum vikum áður en hann var rekinn. Hann nafngreindi ekki aðilann.
„Ég hef oft fengið skilaboð um hver er maðurinn eftir einhver viðtöl en ég hélt að einhver væri dáinn þegar ég kveikti á símanum,“ sagði Kristján um málið í Þungavigtinni.
„Hann er greinilega bara hundfúll á að Breiðablik hafi rekið sig en hann verður að líta í eigin barm. Frá því hann tapaði 7-1 gegn Lech Poznan spilaði hann einhverja 16 leiki og sigarnir voru tveir, gegn Virtus.
Halldór Árnason fékk að kaupa leikmenn eins og hann vildi fyrir þetta tímabil, eyddi tugum milljónum í leikmenn eins og Óla Val og Ágúst Orra. Og þetta er árangurinn,“ sagði Kristján enn fremur og líkti þessu við þegar Arne Slot vann ensku úrvalsdeildina með Liverpool með lið Jurgen Klopp í höndunum.
Mikael gaf ansi lítið fyrir þetta. „Þetta er fallegt ræða og allt það. Óskar Hrafn var svo langt frá því að gera Blika að Íslandsmeisturum áður en Dóri tók við að það var hálf vandræðalegt. Þessar rosalegu styrkingar sem hann nefnir, þetta eru þrír leikmenn.
Hann missir lykilmenn og þurfti að styrkja þessar stöður. Kristinn Jónsson byrjar að spila um mitt mót, Davíð Ingvarsson meiddur meira og minna allt mótið, Anton Logi byrjar vel en meiðist,“ sagði hann.
„Þetta er svo galið, að segja að hann hafi fegnið óútfylltan tékka og að líkja þessu við Arne Slot, sem fékk 400 milljónir punda. Þetta eru tröllasögur og bull því hann var með lélegra lið en í fyrra.“
Mikael hélt áfram í einhvern tíma áður en Kristján tók til máls á ný. Var mönnum orðið heitt í hamsi. „Ég er bara feitur Grikki sem veit ekkert um fótbolta, enda er ég bara atvinnulaus fótboltaþjálfari,“ sagði Kristján og á þar við Mikael. „Ekki vera eins og einhver lítill krakki hérna,“ sagði Mikael þá. Það er ljóst að þeir félagar verða ekki sammála um þetta málefni á næstunni.