

Shay Given fór óvænt að hrauna yfir Alejandro Garnacho á þriðjudagskvöldið og sagði hann stuða fólk þrátt fyrir fína byrjun hjá Chelsea.
Garnacho gekk til liðs við Chelsea í sumar fyrir 40 milljónir punda eftir erfiðan ágreining við þjálfara Manchester United, Ruben Amorim. Þjálfarinn var ósáttur þegar hinn 20 ára Argentínumaður gagnrýndi ömurlegt tímabil United eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar, á meðan Garnacho var þreyttur á að byrja síendurtekið á bekknum.
Hjá Chelsea hefur Enzo Maresca treyst honum betur og hefur Garnacho svarað með því að koma að fjórum mörkum í fyrstu 11 leikjum sínum fyrir félagið. En fyrir leik Chelsea gegn Barcelona í Meistaradeildinni var Given ekki tilbúinn að lofsyngja hann.
„Ég held að hann stuði fólk og þar á meðal mig,“ sagði Given á Premier Sports.
„Hann mætti með hliðartösku í leikinn, keðju að hanga út og þetta viðhorf.“
„Þegar hann er tekinn út af, þá hendir hann treyjunni, sparkar vatnsbrúsum. Hann er ungur og þarf að taka sig á og einbeita sér að ferlinum.“
Given bar hann saman við Robert Lewandowski. „Hann kom af rútunni án heyrnartólanna, engin skrítin húfa, bara fagmannlegur og tilbúinn í leik.“