
Stuðningsmenn Manchester United hafa beint spjótum sínum að framherjanum Joshua Zirkzee eftir 1-0 tap liðsins gegn Everton á Old Trafford.
Kiernan Dewsbury-Hall skoraði eina mark leiksins með flottu skoti utan teigs. Þrátt fyrir að Everton hafi verið manni færri í um 75 mínútur, þar sem Idrissa Gana Gueye fékk rautt spjald fyrir að slá liðsfélaga sinn, Michael Keane, tókst United aldrei að brjóta varnarmúr gestanna.
Zirkzee var í byrjunarliðinu í annað sinn á tímabilinu. Hollendingurinn fékk tvö af bestu tækifærum United í seinni hálfleik en Jordan Pickford varði.
Reiðin hjá stuðningsmönnum lét ekki á sér standa á samfélagsmiðlum „Zirkzee bað um sénsinn, fékk hann og sóaði honum!“ skrifaði einn stuðningsmaður.
„Að halda Zirkzee inná í 90 mínútur var glæpsamleg ákvörðun,“ sagði annar og fleiri tóku til máls. „Zirkzee ætti að fara í janúar.“
Tækifæri Zirkzee kom til vegna þess að bæði Benjamin Sesko og Matheus Cunha eru meiddir.