
Gabriel, varnarmaður Arsenal, lét ekki meiðsli stoppa sig í að taka þátt í fjörinu eftir 4-1 sigur Arsenal á Tottenham.
Gabriel, sem var fjarri góðu gamni vegna meiðsla, nýtti tækifærið til að stríða félaga sínum í brasilíska landsliðinu og leikmanni Tottenham, Richarlison.

Á Instagram birti hann mynd af sér í treyju Eberechi Eze, sem gerði þrennu í leiknum, og með verðlaun hans fyrir að vera maður leiksins. Hann merkti Richarlison á myndina.
Stríðni þeirra á milli er ekki ný af nálinni. Í júlí stríddi Richarlison Gabriel til að mynda eftir vináttuleik í Hong Kong og þá svaraði Gabriel með mynd af þremur verðlaunum sem hann hefur fengið fyrir að vera maður leiksins gegn Tottenham.