
Stuðningsmenn Tottenham eru æfir eftir 4-1 tap liðsins gegn Arsenal á Emirates og hafa margir krafist þess að Rodrigo Bentancur verði seldur í janúarglugganum.
Arsenal stjórnaði leiknum frá upphafi og fór Eberechi Eze, sem Tottenham taldi sig vera að fá í sumar áður en hann valdi Arsenal, á kostum og skoraði þrennu.
Reiði stuðningsmanna beindist að leikmönnum og taktík Thomas Frank, en sérstaklega að Bentancur, sem hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
„Síðasta skiptið í bili sem Bentancur á að spila,“ skrifaði einn stuðningsmaður. Annar bætti við: „Hann felur sig, er út um allt og skapar ekki neitt.“
„Hann leit illa út í þremur mörkum, samt verður hann örugglega áfram fyrsti maður á blað,“ skrifaði enn annar.
Arsenal er með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Tottenham er í níunda sæti.