
Gary Neville, fyrrum varnarmaður Manchester United og sérfræðingur Sky Sports, hefur brugðist við ásökunum um kynþáttamisrétti innan háskólans University Academy 92, sem hann stofnaði árið 2019.
Starfsmaður við UA 92 hélt því fram að hindranir væru til staðar fyrir starfsfólk af erlendum uppruna þegar kæmi að stöðuhækkunum. Óháð úttekt var strax framkvæmd og skýrsla leiddi í ljós að stofnunin uppfyllti ekki viðmið um inngildingu.
Neville, sem situr í stjórn UA92, kallaði starfsfólk saman og viðurkenndi með tár í augum að gera þyrfti betur og að breytingar væru óumflýjanlegar.
UA92, sem hann stofnaði ásamt Ryan Giggs, Paul Scholes, Phil Neville og Nicky Butt, býður upp á nám í íþróttum, viðskiptum og fjölmiðlum með það að markmiði að styðja ungt fólk sem á undir högg að sækja.
Tillögur skýrslunnar fólu meðal annars í sér að setja á laggirnar jafnréttis- og fjölbreytnihóp og hefur einnig verið stofnað innra starfsmannanet um kynþáttajafnrétti.
Samkvæmt heimildum The Sun var Neville mjög hryggur yfir því að starfsfólk teldi slíkt misrétti til staðar og ætlaði að bæta úr því strax.