
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er Harry Kane, framherji Bayern Munchen, á óskalista Barcelona fyrir næsta sumar.
Kane, sem er 32 ára, hefur farið á kostum á tímabilinu og skorað 23 mörk í 17 leikjum fyrir Bayern. Hefur hann heilt yfir verið frábær frá komu sinni frá Tottenham fyrir 100 milljónir punda 2023.
Mundo Deportivo greinir frá því að Barcelona íhugi alvarlega að reyna að landa Kane, sérstaklega ef Robert Lewandowski yfirgefur félagið næsta sumar. Sá pólski verður 38 ára á næsta tímabili og samningur hans rennur út í sumar, þó með möguleika á eins árs framlengingu.
Ef Barcelona og Lewandowski ákveða að skilja leiðir er Kane sagður efstur á óskalistanum. Kane er með 57 milljóna punda riftunarákvæði í samningi sínum sem tekur gildi næsta sumar.