

Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur gengið frá ráðningu Halldórs Geirs Heiðarssonar, Donna, sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla næstu tvö árin.
Donni er mjög efnilegur þjálfari sem ættaður er frá Húsavík og kemur til Njarðvíkur með reynslu úr m.a. þjálfarateymum Þróttar R., Leiknis R og nú síðast HK.
Hermann Hreiðarsson vildi fá Donna með sér til Vals en fékk það ekki, hann verður nú aðstoðarmaður Davíðs Smára Lamude sem tók við Njarðvík á dögunum.
Donni mun útskrifast í nóvember með UEFA Pro þjálfaragráðuna, hæstu evrópsku þjálfararéttindin og verður þar með einn af yngstu Íslendingunum til að ljúka þeirri gráðu.
„Stjórn Njarðvíkur er gríðarlega ánægð að fá Donna inn í þjálfarateymið. Hann kemur inn með mikla tækniþekkingu og mikinn metnað sem mun styrkja félagið til framtíðar,“ segir á vef Njarðvíkur.