

Írska landsliðið mun mæta Tékklandi í undanúrslitum umspilsins fyrir HM 2026 og gæti síðan fengið Danmörku í úrslitaleik á heimavelli.
Heimir Hallgrímsson og hans menn halda til Prag 26. mars, þar sem sæti í úrslitaleiknum er í boði.
Takist Írum að leggja Tékkland, munu þeir spila úrslitaleikinn í Dublin 31. mars gegn sigurvegaranum úr viðureign Danmerkur og Norður-Makedóníu. Heimaleikur í úrslitum var stórt jákvætt skref að sögn Heimis, sem telur stuðninginn í Dublin geta skipt sköpum.
„Fyrri leikurinn var alltaf að fara að verða erfiður, öll liðin sem eiga heimaleik eru ofar en við á styrkleikalista,“ sagði Heimir við RTE.

„Það skipti mig ekki miklu hvaða lið það yrði. Mikilvægara var að fá heimaleik í úrslitunum. Það er líklega Danmörk sem bíður. Mig langaði helst að forðast Ítalíu, svo þetta er fín niðurstaða.“
Heimir segist þó fyrst og fremst horfa á Tékkland: „Það verður erfiður leikur.“
Hann benti á að Tékkland og Ungverjaland, sem Írar unnu dramatískt um helgina, séu að mörgu leyti lík í leikstíl. „Við höfum 126 daga til að greina þá,“ bætti hann við.
„Ég fór einu sinni með Ísland til Tékklands og tapaði, svo ég á ekki góðar minningar þaðan.“