

Florian Wirtz hefur átt erfiða byrjun hjá Liverpool og samkvæmt umdeildum fullyrðingum í þýskum fjölmiðlum er það liðsfélagi hans, Mohamed Salah, sem ber ábyrgðina.
Sport Bild segir að 116 milljóna punda stjarnan hafi ekki náð sér á strik í Englandi og að Salah sé að verða „alvarlegt vandamál“ innan liðs Arne Slot.
Liverpool situr í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar og samkvæmt Sport Bild má rekja vandræði liðsins og Wirtz til þess að Salah hafi ekki gefið honum eina einustu stoðsendingu. Þeir benda á að Egyptinn hafi aðeins þrjár stoðsendingar á tímabilinu, allar til leikmanna sem hafa verið lengi hjá félaginu.
Í greininni segir. „Það sést að hann horfir fram hjá Wirtz og lætur nýju dýru leikmennina ekki njóta sín. Salah er í auknum mæli að verða stórt vandamál fyrir Liverpool og Wirtz.“ Þeir bæta við að þrjóska Salah sé sífellt umræðuefni í klefanum og að hann standi í vegi fyrir nýju uppbyggingu liðsins.
Tímaritið lýsir Salah sem „konungi Englandsmeistaranna“ sem hindri framtíðarhlutverk Wirtz, sem keyptur var fyrir 140 milljónir evra og á að leiða sóknarleik Liverpool í framtíðinni. „Spurningin er hver velti Salah úr sessi, félagið, þjálfarinn eða liðsfélagarnir?“
Að lokum fullyrðir Sport Bild að það sé vel mögulegt að Salah fari til Sádi-Arabíu sumarið 2026.
Wirtz, sem skoraði 57 mörk í 197 leikjum fyrir Bayer Leverkusen, hefur verið gagnrýndur fyrir hæga aðlögun að enska boltanum.